Landaður afli árið 2022 var tæplega 1.416 þúsund tonn sem er 23% meiri afli en landað var árið á undan, samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands. Aflaverðmæti við fyrstu sölu var alls 195 milljarðar króna, sem er aukning upp á 33 milljarða króna eða um 20%. Aukningin skýrist að mestu af líflegum uppsjávarafla.
Útflutningur á sjávarafurðum var 707 þúsund tonn á síðasta ári og jókst um 9% á milli áranna 2021 og 2022. Útflutningsverðmæti sjávarafurða 2022 var 352 milljarðar króna og jókst um 18,3% frá fyrra ári. Þar af var um 141 milljarður króna, eða 40%, vegna útflutnings á þorski og þorskafurðum.
Bretland er áfram stærsti útflutningsmarkaður Íslands að verðmæti, en þangað voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 54 milljarða króna. Mest var hins vegar flutt út af sjávarafurðum til Noregs eða um 167 þúsund tonn að verðmæti 40 milljarðar króna. Mestmegnis var um að ræða kolmunna, loðnu og síld til bræðslu. Álíka verðmæti fengust fyrir útflutning til Frakklands, þar sem magnið var um 40 þúsund tonn, þar af voru 20 þúsund tonn af þorskafurðum.
Botnfisksaflinn nam alls 464.562 tonnum í fyrra, 8% minna en árið áður. Verðmætið hækkaði hins vegar um 16% og var alls 141 milljarður króna. Þar af var þorskurinn 243.483 tonn, 10% minna en árið á undan, en aflaverðmætið var 85,3 milljarðar króna, um 13% hærra en árið á undan. Í fyrra fengust 20,6 milljarðar króna fyrir rúm 57 þúsund tonn af ýsu, 14,5 milljarðar króna fyrir rúm 62 þúsund tonn af ufsa, og tæpir 10 milljarðar fyrir hátt í 40 þúsund tonn af karfa.
Flatfiskafli síðasta árs dróst saman um 23% að magni, en verðmætaaukningin nam fimm prósentum og seldist fyrir alls 10,5 milljarða króna. Skelfisksaflinn dróst hins vegar saman um 3% og var tæplega 6,1 þúsund tonn, að verðmæti 1,2 milljarðar króna, sem er 23% lægri upphæð en árið áður.
Þökk sé miklum loðnuafla nam uppsjávarafli alls 955.954 tonnum, sem er 47% aukning miðað við árið 2021. Heildarverðmæti uppsjávaraflans nam tæpum 47,7 milljörðum króna í fyrra, sem er 41% aukning á mili ára. Alls veiddust tæp 450 þúsund tonn af loðnu í fyrra, sem er hvorki meira né minna en 207% meiri afli en árið á undan. Verðmæti loðnuaflans hækkaði um 80% á milli ára og nam alls 19,5 milljörðum króna. Síldarafli stóð hins vegar í stað og nam ríflega 184 þúsund tonnum, að verðmæti 12,1 milljarðar króna.
Þegar kemur að viðskiptaumræðum á IceFish 2024 verður aukið aflaverðmæti og tekjur í sjávarútvegi í brennidepli. IceFish hefur verið öflugasti og vinsælasti samkomustaður íslenska sjávarútvegsins í hvorki meira né minna en 40 ár og verður um ókomna tíð. Við fögnum 40 ára afmælinu dagana 18.-20 september á næsta ári með frábærri sýningu í Smáranum og ótal áhugaverðum viðburðum. Til að fá frekari upplýsingar um Íslensku sjávarútvegssýninguna 2024 eða til að bóka sýningarpláss er þægilegast að hafa samband við viðburðarteymið okkar í netfanginu info@icefish.is.