“Íslenska sjávarútvegssýningin er viðburður sem við viljum taka þátt í,” segir Ingvar Bjarnason framkvæmdastjóri Landvéla. Þar getum við hitt viðskiptavini okkar alls staðar af landinu því enginn þeirra lætur sig vanta. Það er ekki að ástæðulausu að hún er kölluð Sýningin með stórum staf.


Ingvar segir að Landvélar líti á Íslensku sjávarútvegssýninguna bæði sem fiskveiðisýningu og sjávarafurðasýningu og hún laði að sér einstaklinga og fyrirtæki víða að úr íslensku viðskiptalífi.

“Sýningin er orðin að iðnaðarsýningu á breiðum grunni sem dregur til sín ný fyrirtæki, vélsmiðjur og verkfræðifyrirtæki hvaðanæva af landinu. Fyrir okkur er þetta líka kjörinn vettvangur til þess að kynna viðskiptavinum okkar hvers konar nýjungar. 

Landvélar ehf. var stofnað árið 1965 sem þjónustufyrirtæki fyrir landbúnað en í áranna rás hefur þungamiðjan færst yfir í þjónustu við íslenskan iðnað og athafnalíf í sinni víðustu mynd.

Meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru flest framleiðslu- og iðnfyrirtæki landsins, útgerð og vinnsla, stórar og smáar vélsmiðjur, öll stóriðjan, orkufyrirtækin og fjölmargir verktakar og nýsköpunarfyrirtæki. Nú sem fyrr er býður fyrirtækið upp á fjölbreytta þjónustu við bændur og ýmsa smærri aðila. 

Vöruúrvalið er víðfermt en kjarnastarfsemin er annars vegar þjónusta og ráðgjöf með há- og lágþrýstan drif- og stjórnbúnað þar sem flæði á vökva eða lofti er hreyfiaflið og hins vegar sala og ráðgjöf með verkfæri, rafsuðuvélar og annar búnaður fyrir fagaðila, vélsmiðjur og verkstæði.

Samstarfsaðilar Landvéla skipta hundruðum og eru margir þeirra leiðandi á sínu sviði. Fremst meðal jafningja eru fyrirtæki eins og Bosch Rexroth, Parker, SKF, Dunlop Hiflex, Hansa Flex, Merlett, Kemppi, Elga og ABUS.