Valka er leiðandi fyrirtæki við framleiðslu á hátæknivinnslukerfum fyrir botnfisk og lax. Fyrirtækið nýtir sér sjálfvirkni til að ná fram mikilli nákvæmni í vinnslu með lágmörkun úrgangs og hámarksframleiðni. Árið 2011 kynnti fyrirtækið alsjálfvirka beina- og bitaskurðarlínu, þar sem notast var bæði við röntgentækni og þrýstivatnsþjarka til að skera flök. Markaðshlutdeild hefur vaxið jafnt og þétt.
Magnús Jóhannsson tekur nú við stöðu þjónustustjóra fyrir Noreg og Rússland. Hann mun hafa forystu við að ná fram þeim markmiðum sem fyrirtækið setur sér um vöxt, og byggir þar á afbragðs orðspori fyrirtækisins hvað varðar þjónustu og afhendingu til viðskiptavina. Hann hefur aðsetur á nýrri skrifstofu Völku í Alta í Norður-Noregi.
Magnús kemur með mikla reynslu úr tæknigeira sjávarútvegsins. Undanfarin ár hefur hann verið tæknistjóri hjá Grieg Seafood í Alta. Magnús starfaði áður hjá Skaganum 3X, þar af sjö ár sem þjónustustjóri.