Bláu toghlerarnir eru algeng sjón á sérhverri sjávarútvegssýningu en Íslenska sjávarútvegssýningin er í sérstöku uppáhaldi hjá þremenningunum sem eru jafnan í forsvari fyrir Thyborön Trawldoors á þessum sýningum. Ísland hefur lengi verið sterkur markaður fyrir Thyborön toghlera, markaður sem gerir kröfur um árangur en kann jafnframt að meta skilvirka og góðrar þjónustu.
„Íslenski markaðurinn er sérstaklega opinn fyrir nýjungum,“ segir Allan Rönn Pedersen. „Íslenskir skipstjórar og útgerðir hafa alltaf áhuga á að reyna eitthvað nýtt, þannig að Ísland er sannarlega vettvangurinn til að prófa nýjungar.“
Hann nefndi sem dæmi að eftir að fram hefði farið í Alaska frumvinna við þróun kerfis til að draga botntroll með hlerum ofan við sjávarbotn hefðu skipstjórar á Íslandi verið í hópi þeirra áköfustu að tileinka sér þessa aðferð. „Barði, togari Síldarvinnslunnar, var fyrsta íslenska skipið og skipstjórnarmennirnir voru sannfærðir um að aðferðin gengi upp,“ segir Pedersen.
„Við leggjum okkur sérstaklega fram þegar Íslenska sjávarútvegssýningin á í hlut enda höfum við verið fastir þátttakendur þar alveg frá byrjun. Við munum örugglega hafa eitthvað nýtt að sýna. Íslenska sjávarútvegssýningin er mikilvægur viðburður fyrir okkur því þar hittum við íslenska viðskiptavini okkar og einnig þá erlendu. Þangað koma skipstjórar frá Hollandi, Noregi, Færeyjum og Rússlandi. Allir koma þangað.“