„Áður var móðurfyrirtæki okkar, Egersund Trål í Noregi, þátttakandi í sýningunni á þriggja ára fresti. Allt frá því að Egersund Ísland var stofnað árið 2004 höfum við notið stuðnings móðurfélagsins,“ segir Stefán Ingvarsson framkvæmdastjóri Egersund Ísland.
Egersund Ísland er staðsett á Eskifirði í námunda við mið helstu uppsjávarfiska, loðnu, síldar, makríls og kolmunna, og sérhæfir sig í búnaði til uppsjávarveiða, en hefur í seinni tíð útvíkkað starfssvið sitt sem nær nú einnig til þess að þjóna vaxandi laxeldi.
„Það er mikið um að vera í laxeldinu. Á næsta ári verður laxeldisstöð gangsett í Reyðarfirði og laxeldi í Berufirði verður stækkað, auk þess sem fyrir liggja umsóknir um fleiri laxeldisleyfi,“ segir Stefán. „Við höfum þegar selt mörgum starfandi laxeldisstöðvum í Noregi búnað frá Egersund og þar njótum við reynslu og sérþekkingar móðurfélagsins. Við getum útvegað allan búnað sem þurfa þykir, m.a. laxeldiskvíar og akkeri, jafnvel fóðurpramma. Það þýðir að viðskiptavinirnir þurfa bara að koma með laxinn.“
„Sjávarútvegssýningin er okkur mikilvæg og við verðum með aftur á næsta ári. Við erum ekki alltaf með eitthvað nýtt til að sýna en það er ávallt einhver framþróun sem gerir veiðar auðveldari og búnaðinn meðfærilegri í notkun. Við þurfum ekki stöðugt að vera að finna upp hjólið þannig að þótt ekki sé hægt að kynna til sögunnar einhverjar stórar nýjungar í hvert sinn er sýningin mikilvægur vettvangur til þess að hitta gamla viðskiptavini sína og einhverja nýja líka. Sýningin er besti staðurinn til þess að taka púlsinn á atvinnugreininni,“ segir Stefán Ingvarsson.