Naust Marine hefur tekið nýja stefnu á undanförnum árum og nýtt sér mikla og langvarandi reynslu sína til að hefja framleiðslu á sínum eigin togvindum.
Sölu- og markaðsstjóri Naust Marine, Helgi Kristjánsson, segir að framleiðslan hafi ekki verið komin nógu langt á veg til að búa fyrstu togveiðiskip Íslendinga af nýrri kynslóð togara, þrjá fyrir HB Granda og tvo fyrir Gunnvöru og VSV, fullkomnum alhliða eigin sjálfvirkum togvindubúnaði.
„Trolltogvindurnar í nýju skipunum eru frá öðrum framleiðanda en allar aðrar vindur um borð eru smíðaðar af okkur,“ sagði Helgi og gat þess að undirverktakar þeirra í Kína og Tyrklandi leggi fram stálbúnaðinn en að Naust Marine hafi alla yfirumsjón með smíðinni og annist gæðastjórnun.
Nú eru togvindur fyrirtækisins komnar á markað en fyrstu kaupendur þeirra er að finna í Seattle í Bandaríkjunum. Skipin Northern Jaeger og American Triumph hafa verið búin nýjum togvindum frá Naust Marine og næst er á dagskrá að búa togveiðiskipið Island Enterprise sama búnaði.
Naust Marine verður á Íslensku sjávarútvegssýningunni í haust eins og hingað til, að þessu sinn til að kynna nýja línu af togvindum.
„IceFish er algjör lykilsýning fyrir okkur,” sagði Helgi. „Íslenski markaðurinn skiptir okkur miklu en hann er fremur takmarkaður svo við verðum líka að afla okkur erlendra viðskiptavina. IceFish veitir okkur tækifæri til að taka á móti gestum og þeir koma til okkar á hverri sýningu frá Evrópu, Ameríku og Asíu. Á sýningunni gefst okkur tækifæri til að sýna hvað í okkur er spunnið.“