Skipasmíðastöðin er þekkt fyrir að leggja áherslu á gæði í nýsmíðum auk þess sem skipaviðgerðir eru mikilvægur þáttur starfseminnar.
„Við lítum á Ísland sem áhugaverðan markað fyrir okkur. Nodosa er hefðbundinn framleiðandi fiskiskipa, á því sviði höfum við komið okkur vel fyrir og þar ætlum við að starfa áfram,“ segir Daniel Dopico framkvæmdastjóri stöðvarinnar.
„Við höfum fylgst með þróuninni á Íslandi, þar sem mikið hefur verið pantað af nýjum fiskiskipum upp á síðkastið. Við teljum að á Íslandi geti verið markaður fyrir það sem við höfum að bjóða. Gæði borga sig þegar til lengri tíma er litið og við smíðum hvert einasta skip eins og við værum að smíða það fyrir okkur sjálfa.“
Fyrir tveimur árum færði Nodosa út kvíarnar við höfnina í Marín og stækkaði athafnasvæði sitt eftir að önnur skipasmíðastöð við hliðina lagði upp laupana. Þar af leiðandi hefur afkastageta Nodosa bæði hvað varðar nýsmíði og skipaviðgerðir aukist verulega. Nú er fyrirtækið með sex dráttarbrautir, þar sem hægt er að taka upp allt að 150 metra löng skip.
Verkefni Nodosa skipasmíðastöðvarinnar um þessar mundir eru fjölbreytt. Þar má nefna endursmíði á túnfiskskipum, nýsmíði dragnótaskipa fyrir hollenskar útgerðir, smíði línufrystiskips fyrir útgerð á Falklandseyjum og stöðug viðgerðar- og viðhaldsverkefni fyrir heimaflotann. Í pöntun hjá Nodosa er meðal annars nýsmíði tveggja ferskfisktogara fyrir Þjóðverja og nýsmíði nokkurra úthafsveiðiskipa af fullkomnustu gerð fyrir spænskar útgerðir.