Ný-Fiskur setur upp nýju FleXicut-vélina í vinnslu sinni í Sandgerði en þar eru unnin um 6000 tonn hráefnis á ári hverju og afurðirnar að mestu fluttar út til Belgíu og annarra Evrópumarkaða. Þetta er tíunda FleXicut-vélin sem Marel selur til íslensks fyrirtækis.
Þróun FleXicut-vélarinnar hefur verið stöðug allt frá upphafi og hún er kjarni vinnslukerfis sem bætir alla meðferð, afrakstur og framleiðni. Nýjasta útgáfan bætir enn frekar vinnslu þar sem mannshöndin kemur nær hvergi nærri, allt frá fyrstu snyrtingu til lokafrágangs og pökkunar þar sem nýting hvers einasta flaks er hámörkuð.
„Þetta er okkur jafn mikið tilhlökkunarefni nú og síðast,“ segir framkvæmdastjóri Ný-Fisks, Þorsteinn Magnússon. „Við vitum að fjárfestingin tryggir okkur bæði aukinn vinnsluhraða og vörugæði og við trúum því að nýju eiginleikarnir tryggi okkur forskot í samkeppninni.“
FleXicut frá Marel er í fararbroddi hvað varðar nýsköpun á sviði fiskvinnslu og hefur náð miklum árangri við að hámarka nýtingu flaka og færa framleiðslustjórum betri umsjón með vinnslunni en nokkru sinni fyrr.
„Við vissum strax frá upphafi að FleXicut hafði upp á margt að bjóða hvað varðar framleiðni, meðferð og afrakstur,“ sagði sölustjóri Marels, Óskar Óskarsson.
„Að undanförnu hafa raunverulegir möguleikar hugbúnaðartækni æ betur verið að koma í ljós. Stjórnendur vélanna geta skilgreint í FleXicut hvar mesta verðmætið er að finna fyrir hvern og einn hvað skurð varðar og tækið nýtir sér þær upplýsingar til að ákveða hvernig hvert einasta flak er skorið. Þetta er gjörbylting.“