Engey RE lagðist að bryggju í Reykjavík 25. janúar eftir siglingu frá Tyrklandi þar sem skipið var smíðað. Engey RE er fyrsti ísfisktogarinn af þremur eftir sömu hönnun sem HB Grandi er með í smíðum í skipasmíðastöðinni Celiktrans í Tyrklandi. Skipin eru 54,75 metrar að lengd og 13,5 metra breið og knúin 1790 kW MAN aðalvél.
Fjárfesting HB Granda vegna skipanna þriggja nemur um 7 milljörðum króna. Auk skipanna þriggja í eigu HB Granda er Samherji/ÚA með þrjár togara í smíðum í Tyrklandi og FISK Seafood með einn á sama stað. Þá eru Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal með hvor sinn togarann í smíðum í
Kína og nýr frystitogari Ramma verður afhentur í Tyrklandi fljótlega.
Margar nýjungar eru í Engey RE. Þessa dagana vinnur Skaginn3X að því að setja byltingarkenndan vinnslu- og lestarbúnað um borð. Lestin er sjálfvirk og Engey er fyrsti ferskfisktogari í heiminum sem verður með mannlausa fiskilest. Vinnsla á millidekki byggist á undirkælingu, þar sem fiskurinn er kældur niður að einni gráðu án þess að frjósa. Þá hefur nýtt stefnislag á skipinu vakið athygli en það gerir að verkum að skipið klýfur ölduna í stað þess að lyftast upp á henni og skella svo niður og stoppa. Nýja stefnið stuðlar að orkusparnaði og gerir vistina um borð þægilegri fyrir áhöfnina. Engey RE leysir af hólmi aflaskipið Ásbjörn RE sem er 30 ára gamall. Um síðustu áramót hafði Ásbjörn fiskað um 225.000 tonn á þeim tíma sem hann hefur verið í rekstri.