Ræða Þórs nefndist „Við getum skapað meiri verðmæti!“ og fjallaði um sjávarútvegsiðnaðinn á Íslandi og þá víðtæku möguleika sem bjóðast þeim sem vilja finna nýjar leiðir til að nýta fiskúrgang. Hann lagði áherslu á mikilvægi viðburða á borð við ráðstefnuna, því að þar hittast lykilmenn í greininni og með samstilltu átaki þeirra er hægt að knýja fram breytingar.
Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands, veitti ákaflega áhugaverða innsýn í starfsemi fyrirtækisins sem miðar að því að nýta fiskinn til fulls. Þó að fyrirtækið sé tiltölulega ungt nýsköpunarfyrirtæki er starfsemi þess nú þegar orðin umfangsmikil og það vinnur að mörgum verkefnum í faginu.
Hilmar Kjartansson, bráðalæknir hjá Kerecis, veitti heillandi innsýn í læknisfræðilega notkunarmöguleika fiskroðs. Hann útskýrði hvernig framleiðsla fyrirtækisins hefur verið notuð til þessa og ræddi möguleika hennar fyrir sykursjúka og jafnvel þá sem hafa misst útlimi eftir að hafa stigið á jarðsprengjur. Hann lagði áherslu á að helsta vara Kerecis er EKKI plástur og henti ekki í allri sárameðferð, heldur einkum til að meðhöndla þrálát sár sem gróa illa eða ekki.
Mun verðmæti aukaafurða sjávarfangs fara fram úr verðmæti þess hluta fisksins sem nú er nýttur? var ein þeirra spurninga sem borin var upp í pallborðsumræðum á eftir málstofuna. Þátttakendur í pallborðinu svöruðu því játandi. Þannig sé verðgildi þeirrar vöru sem Kerecis og Codland framleiða nú þegar hærra en t.d. fiskflaka, en hins vegar verði ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að sökum mikilvægi þess að fæða jarðarbúa sem fjölgar ört, verði alltaf eftirspurn eftir fiskmeti til manneldis og þar með njóti matvælaframleiðendur fjárhagslegs öryggis áfram.