Prentarinn notar íslenskan þorskmarning, saltaðan þorsk og þorskprótein og var um daginn látinn búa til Saltaða þorskeldfjallið í höfuðstöðvum Natural Machines í Barselóna á Spáni.
Saltaða þorskeldfjallið er bara einn af nýskapandi matarréttum sem skapaður hefur verið með fersku hráefni frá Íslandi. Til stendur að móta fleiri rétti úr íslensku sjávarfangi með þrívíddarprentaranum Foodini en hann er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og Norðurlöndum.
Stofnandi og markaðsstjóri Natural Machines, Lynette Kuscma, heldur fyrirlestur á World Seafood ráðstefnunni í Reykjavík í ár og fjallar um þrívíddarprentun matar og möguleika sjávarfangs á því sviði.
Aðalviðfangsefni World Seafood ráðstefnunnar 2017, sem haldin er áður en íslenska sjávarútvegssýningin verður opnuð, verður vöxtur í bláa lífhagkerfinu, hagnýt aðkoma að því og nýjustu rannsóknir á sviði markaðsnýsköpunar, fæðuöryggis og matarheilinda. Meginstoðir þessa eru nýsköpun í sjávarútvegi með áherslu á dæmi um nýjar vörur og fjárfestingar, matarheilindi og hvernig berjast skuli gegn svikum í matvælaframleiðslu á tímum aukinnar netverslunar, ferðaþjónusta og krafan um gagnsæi virðiskeðjunnar og síðast en ekki síst um matvælaöryggi í ljósi nýmæla í vinnslu sjávarfangs og alþjóðlegra viðskipta.
World Seafood ráðstefna er haldin að frumkvæði Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan er á vegum Samtaka fag- og eftirlitsaðila í fiskiðnaði (IAFI - International Association of Fish Inspectors). Hver ráðstefna fyrir sig er haldin í samráði við sérvalda stofnun í viðkomandi landi og er ráðstefnan í ár skipulögð af Matís hf. sem vinnur að matvælarannsóknum og þróun í matvælaiðnaði.