Ace Aquatec, tæknifyrirtæki í fiskeldisiðnaði með aðsetur í Dundee í Skotlandi, hefur nú útvíkkað markaðssvæði sitt alla leið til Eyjaálfu. Þar er að finna nýsjálenska laxeldisfyrirtækið Mount Cook Alpine Salmon, staðsett skammt frá Mount Cook. Forsvarsmenn þess telja mikinn ávinning fólginn í notkun A-BIOMASS-myndavélarinnar frá Ace Aquatec, en hún hefur verið verðlaunuð fyrir notkunarmöguleika og gæði.

A-BIOMASS er háþróuð neðansjávarmyndavél, hönnuð til að auka skilvirkni og nákvæmni í mælingum á lífmassa og dreifingu mismunandi fisktegunda. Myndavélin nýtir sér gervigreind og vélnám, undirgrein gervigreindar, til að ná fram nákvæmni í rauntíma upp á millimetra.

Myndavélin er aðeins 8,5 kg að þyngd, fullkomlega sjálfvirk og smærri og meðfærilegri en flestar aðrar á markaðnum. Hún nýtir nýjustu gervigreindartækni til að tryggja að meðalþyngd fisksins og dreifing sé sem jöfnust og nákvæmust, óháð eldistíma.

Laxeldisfyrirtækið Mount Cook Alpine Salmon er staðsett í nágrenni mikils vatnasvæðis, þar sem bæði ár og fossar tengja saman þrjú fjallavötn og skapa einstakar aðstæður fyrir notkun A-BIOMASS-myndavélarinnar. Með fínstillingu búnaðarins getur Ace Aquatec glímt við erfiðar umhverfisaðstæður á borð við jökulleysingar, léleg birtuskilyrði, þ.e. nánast myrkur, og fjölbreyttar tegundir fiska. Þessi mikla nákvæmni myndavélarinnar gerir Alpine Salmon kleift að greina á milli fiskitegunda fyrir vinnslu og spara samtímis tíma og erfiði við meðhöndlunina, sem minnkar álag á fiskinn, gerir vinnuumhverfið öruggara og dregur úr þörf fyrir starfsfólk.

Tækið hefur þegar bætt skilvirknina hjá laxeldisfyrirtækinu, sem selur afurðir sínar bæði á innlendan markað í Nýja-Sjálandi og til útflutnings. Það metur nákvæmnina vera 97% í meðaluppskerum síðustu 18 mánaða og einstakar uppskerur ná allt að 99,75% nákvæmni.

Samstarfið markar tímamót fyrir Ace Aquatec þar sem önnur fiskeldisfyrirtæki á Nýja-Sjálandi horfa nú til þess að ná sama árangri með lífmassakerfi Ace Aquatec.

„Samstarf okkar við Mount Cook Alpine Salmon endurspeglar alþjóðlegt aðdráttarafl framleiðslubúnaðar okkar. Við erum að flytja skoska tækni þvert yfir hnöttinn og höfum séð að notkun þeirra þar hefur vakið mikla athygli á þeim ávinningi sem fæst af notkun A-BIOMASS-búnaðarins. Við hlökkum til að auka útbreiðsluna á þessu markaðssvæði og um allan heim,“ sagði Tara McGregor-Woodhams, yfirmaður sölu og markaðsmála hjá Ace Aquatec.

Jon Bailey, framkvæmdastjóri Mount Cook Alpine Salmon, segir að A-BIOMASS myndavélartæknin hafi skilað mikilli nákvæmni frá upphafi. Spár búnaðarins séu í góðu samræmi við raunverulega uppskeru og hafi aukið nákvæmni í eldinu til muna seinustu átján mánuði.

„Árangurinn hefur batnað verulega varðandi einstaka uppskerur seinustu mánuði og við vonumst til að auka notkun þessara tækja á fleiri svæðum í framtíðinni til að hámarka starfsemi okkar enn frekar,“ segir hann.

 

Ace Aquatec A-BIOMASS

Ace Aquatec A-BIOMASS