„Sóun í sjávarútvegi er ekki aðeins ósamrýmanleg kröfum umhverfisins heldur jafngildir hún einnig glötuðu tækifæri til sjálfbærs hagvaxtar,“ segir Alexandra Leeper, yfirmaður rannsókna og nýsköpunar hjá Íslenska sjávarklasanum. Hún hefur doktorsgráðu í sjálfbæru fiskeldi, auk þess að hafa BS gráðu í sjávarlíffræði og MS gráðu í sjávarumhverfisfræði.
Þetta kom fram á veffundi sem haldinn var nýlega, undanfari fimmtu Fish Waste for Profit-ráðstefnunnar sem haldin er samhliða IceFish 2024 í september næst komandi. Ráðstefnan fer fram á Hotel Hilton Reykjavík Nordica dagana 19. og 20. september en þar fjalla helstu sérfræðingar á sínu sviði um ótal hliðar fullnýtingar sjávarfangs og hvernig breyta á fiskúrgangi í ný verðmæti. Mikla gróska er á því sviði og margar nýstárlegar leiðir í boði sem fjallað verður um á ráðstefnunni.
Hefur breytt nálguninni
„Í Íslenska sjávarklasanum er hugmyndafræðin sem við kennum við „100% fisk“ í raun kjarni alls sem við gerum,“ segir Alexandra. „Hugmyndin er sú að við getum nýtt hvern einasta hluta fisksins, ekki bara flakið sjálft, heldur líka hausinn, roðið, beinin, slógið og annað sem til fellur, til að sóa engu og skapa ómæld verðmæti. Þessi hugmyndafræði hefur í raun breytt nálgun okkar á meðhöndlun fisksins við veiðar, vinnslu og eldi og hvernig við nýtum hvern einasta hlut hans eftir föngum. Ef við tökum dæmi af þorskinum sem við sækjum í Norður-Atlantshafið þá var áður fyrr aðeins talið vænlegt að nýta fiskflökin og að þau ein fælu í sér verðmæti. En nú horfa menn á þorskinn með allt öðrum hætti, vitandi að búið er að skapa verðmæti úr öllum öðrum hlutum hans fyrir mismunandi virðiskeðjur í mismunandi vörulínum.”
Sem dæmi um slíkar aukaafurðir nefnir hún fóður fyrir fiskeldi og landbúnað, matvæli til manneldis á borð við snakk, næringarefni úr kollageni sem fer t.d. í drykkjarþeytinga, snyrtivörur og húðvörur, roð sem nýtt er í tískuiðnaði eða í framleiðslu lyfja gegn flensum og kvefi, eða jafnvel í líftækni við ágræðslu húðar.
„Það er í raun ekki ýkja langt síðan aðeins var hægt að selja þorskflakið fyrir tólf dollara, en með tilkomu allra þessara margþættu virðisaukakeðja getur fiskurinn í heild sinni verið allt að 5 þúsund dala virði þegar allt er nýtt til fullnustu. „100% fiskur“ hugmyndafræðin er því griðarlega skynsamleg og er í vaxandi mæli beitt við vinnslu sjávarfangs um allan heim,“ segir Alexandra.
Þurfum að koma sögunum á framfæri
Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans, sendi nýlega frá sér bók á ensku, 100% Fish, þar sem farið er yfir hvernig íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa náð leiðandi stöðu í nýtingu á fiskafurðum í heiminum. Á fyrrnefndum veffundi sagði Þór að við undirbúning bókarinnar hefði hann rekist á margar hetjur hafsins á landi, þ.e. fólk sem er að þróa ótrúlega áhugaverða hluti hvað varðar nýtingu sjávarfangs. Mikið af því fólki starfi þó í skugganum ef svo má segja, fjarri sjónum almennings.
„Það er ákveðinn vandi að við tölum aldrei um sögur þessa fólk. Við þurfum að koma þeim á framfæri og sýna almenningi hversu margir möguleikar eru í boði og að það sé fólk á kafi í þróunarvinnu sem við getum dregið lærdóm af. Það er mikilvægt að almenningur viti að þessar spennandi nýjungar eigi sér stað í núinu.”
Þór bendir á ýmis dæmi um nýsköpun á þessu sviði, t.d. nýtt handkrem sem unnið er úr humarskeljum í Maine, leður sem framleitt er úr hvítfiski úr vötnunum miklu á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, og hundanammi sem gert úr er Alaska-þorskinum. Þór segir margt myndi vinnast með því að kynna slíkar nýjungar opinberlega og sýna þannig að um allan heim sé verið að vinna raunveruleg verðmæti úr afurðum sem áður var fargað.
„Ég held að einmitt þess vegna sé vakningin samfara „100% fiskur“ hugmyndafræðinni ótrúlega mikilvæg. Ef við getum veitt greininni innblástur, hvatt vísinda- og háskólamenn til að skoða geira sem til þessa hefur nánast verið hulinn þoku og sjá þannig tækifærin sem bjóðast ef þeir koma með þekkingu sína og færni inn í hann, þá gætum við náð ennþá betri árangri.“
Fimmta Fish Waste for Profit-ráðstefnan, sem ber yfirskriftina „Transforming the Blue Economy to 100% Green“ eða Gerum bláa hagkerfið fullkomlega grænt, fer fram á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Bókaðu pláss á ráðstefnuna hér:
Buy | Fish Waste For Profit (worldfishing.net)