FishFacts, hollenskt fyrirtæki sem rekur stafrænan vettvang fyrir alþjóðlegan sjávarútveg, hefur sent frá sér nýja skýrslu um hvaða skip státa af bestri aflanýtingu í júlimánuði, þar á meðal íslensk veiðiskip. FishFact kynnir þjónustu sína og störf á sýningarbás F42 á IceFish 2024.

FishFacts safnaði saman opinberum gögnum um afla og veiði frá Íslandi, Noregi og Færeyjum, og nýtir eigið AIS-kerfi (Automatic identification system) til að reikna út fjölda ferða og veiðitíma.

Útreikningar við gerð skýrslunnar taka til rækjuveiða, veiða á Norðursjávarsíld á norskum miðum og makrílveiðum á Íslandsmiðum og byggja á víðtækum gögnum, reikniritum og vélanámi, sem er undirgrein gervigreindar og tölvunarfræði. FishFacts tókst út frá þessum upplýsingum að ákvarða hvaða skip voru með hámarks aflanýtingu í júlí sl.

Skipið Zenit (áður Birkeland) var með bestu nýtinguna í Noregi, eða 39,13 tonn af Norðursjávarsíld á klukkustund. Aflinn í einum túr í júlí var alls 420 tonn. Í öðru sæti var Hargun með 29,95 tonn á klukkustund og var afli skipsins í mánuðinum alls 1.638 tonn. Skipið Krossfjord var í þriðja sæti með afla upp á 22,23 tonn á klukkustund, samtals 722 tonn í einni veiðiferð.

Skipið Gadus Njord aflaði best á rækjuveiðum, með 0,97 tonn á klukkustund, en það veiddi alls 364 tonn í einum túr. Skipið Kongsfjord fylgdi fast á eftir með 0,95 tonn í einni ferð, en alls var aflinn 368 tonn. Í þriðja sæti var Gadus Poseidon með 0,9 tonn á klukkustund en heildaraflinn í þeirri veiðiferð var 453 tonn.

Þegar litið er til makrílveiða var Svanur, skip Brims, með bestu veiðina, eða 14,46 tonn á klukkustund. Skipið veiddi alls 2.766 tonn í þremur túrum. Í öðru sæti var skip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson, með 13,93 tonn á klukkustund, og alls 3.802 tonn í fjórum veiðiferðum. Í þriðja sæti var Aðalsteinn Jónsson, skip Eskju, með 10,79 tonn á klukkustund, eða alls 3.644 tonn í þremur túrum.

 

FishFacts

FishFacts

 

[FishFacts.jpg] Myndatexti: Siglingarleiðir Zenit, Hargun og Krossfjord í júlí 2024.