Þessi tækjanýjung GreenFox Marine nýtir sér háþróaða ómskoðunar- og gervigreindartækni við flokkunina, en að því er fram kemur hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins veitir það fiskeldisfyrirtækjum verulegan ávinning að geta kynflokkað fisk hratt og örugglega. Það geti m.a. bætt heilsufar fisksins í framleiðslukerfunum.

Fiskeldisfyrirtæki í Chile hafa kynflokkað fisk handvirkt um margra ára skeið og seinustu ár með handhægum og færanlegum ómskoðunartækjum. Raunar er um helmingur af þeim laxi sem framleiddur er í Suður-Ameríku nú kynflokkaður, þar sem nokkur af stærstu fyrirtækjum í greininni hafa lagt ríka áherslu á að gera slíka flokkun að stöðluðum vinnubrögðum fyrir alla sína framleiðslu.

Í Noregi eru fiskeldisfyrirtæki með sambærileg verkefni í fullum gangi og kynflokkun þar hefur sýnt fram á verulegan mun á vexti karlkyns fiska annars vegar og kvenkyns fiska hins vegar. Til marks um það er að karlfiskar eru að meðaltali 17% þyngri en kvenfiskar eftir níu mánuði í sjó, í þeim samanburðarhópum sem verkefnið nær til. Reiknað er með að þessi munur á vexti fiskanna aukist enn frekar í samræmi við lengd tímans sem fiskurinn dvelur í fiskeldiskvíum í sjó.

Kynflokkunarvélar GreenFox hafa verið ítarlega prófaðar og hafa verið nýttar í framleiðslufyrirtækjum um tveggja ára skeið. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja tækin hafa gengið snurðulaust allan þann tíma og tryggi 96-99% nákvæmni í kyngreiningu, en þau flokka fiska frá 30-130 grömm að stærð.

Samkvæmt GreenFox eru helstu kostir kynflokkunar þessir:

• Verulegur aukinn vöxtur hjá báðum kynjum.

• Styttri tími í sjó sem tryggir betri nýtingu.

• Fækkar vandamálum tengdum sjólús.

• Bætt heilbrigði fisks og lægri dánartíðni.

• Framleiðslan löguð að báðum kynjum, sem þýðir t.d. að kvenfiskar þurfa ekki sérstaka ljósameðferð.

GreenFox Marine hefur einnig notað sömu tækni til að greina frávik í öðrum líffærum fisksins, þar á meðal nýrnabólgu á frumstigi í fiski frá 30 grömmum. Það gerir fyrirtækjum í fiskeldi kleift að grípa til aðgerða gegn slíkum bólgum og öðrum fylgikvillum fyrr en áður. Þá geta tækin líka greint í kynflokkunarferlinu hvort að fiskurinn sé snemmþroska eða hvort að einhver aflögun sé á hjörtum fiska í sömu stærðum. Forsvarsmenn GreenFox gera ráð fyrir að áður en langt um líður geti tæknin stuðlað að nákvæmu yfirliti yfir heilsu fisksins og horfur. „Kynflokkun er framtíðin,“ segja þeir fullum fetum.

GreenFox