Sjávarútvegsfræði er þverfaglegt nám sem hefur verið kennt við Háskólann á Akureyri (HA) síðan 1990. Nemendur öðlast yfirgripsmikinn skilning á hagnýtum vísindum, þar á meðal stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði, auk þess að ná valdi á lykilþáttum í viðskiptafræði, hagfræði, fjármálum og stjórnun.

Magnús Víðisson, aðjúnkt og brautarstjóri í sjávarútvegsfræði við auðlindadeild HA, sagði í samtali við IceFish-teymið að námið gefi nemendum færi á að öðlast ítarlega þekkingu á helstu nýjungum og framförum á sviði sjávarútvegsfræða. Það spanni alla virðiskeðjuna frá vistkerfi hafsins til sjálfs markaðarins.

„Nemendur fá innsýn í samskipti manns og sjávar nú og fyrr, og leysa verkefni sem fela í sér samþættingu umhverfisþátta og efnahagsþátta, samtímis því að öðlast færni í aðferðum á sviði upplýsingatækni, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Magnús.

Nemendur í sjávarútvegsfræði við HA þurfa að setja verkefnismarkmið og standast þau, kynnast vinnu á rannsóknarstofu og á vettvangi og beita fjárhagslegri og vísindalegri aðferðafræði til að taka upplýstar ákvarðanir. Þeir leggja gagnrýnið mat á eigin verk og annara, tileinka sér nákvæmni í meðhöndlun gagna og ná tökum á viðeigandi hugbúnaði og tækni.

Útskriftarnemar nýta sér þekkingu sína bæði í verklegu og fræðilegu samhengi og rökstyðja lausnir á vandamálum sem tengjast faginu.

„Nemendur miðla niðurstöðum rannsókna sinna á skilvirkan hátt, eiga samstarf með mismunandi teymum og sýna fram á fræðilega nákvæmni, sjálfstæð vinnubrögð og frjóa hugsun, og eru búnir undir fjölbreyttar áskoranir í sjávarútvegi,“ segir Magnús.

Hann segir að nemendur í sjávarútvegsfræði geti einnig fengið gráðu í viðskiptafræði og bæta þá við einu ári í viðskiptagreinum. Þá útskrifast þeir með tvær námsgráður. Einnig geta þeir skráð sig í bæði sjávarútvegsfræði og viðskiptafræði frá upphafi.

Stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru á meðal vinnuveitenda þeirra sem útskrifast úr náminu, þar á meðal Samherji, Brim og Vinnslustöðin. Þeir sem hafa lokið náminu hafa m.a. orðið forstjórar, framleiðslustjórar, deildarstjórar, fjármálastjórar, verkefnastjórar, gæðastjórar og markaðsstjórar hjá fyrirtækjum. Margir stofna einnig eigin fyrirtæki eða halda til starfa erlendis.

Hann segir námið einnig gagnlegt á breiðara sviði, þar sem allt að helmingur útskrifaðra sjávarútvegsfræðinga starfi utan hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja, svo sem í fjármála-, flutnings- og hugbúnaðargeirum.

„Íslenskur sjávarútvegur einkennist af nýsköpun og framförum sem veitir fjölmörg tækifæri hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum,“ sagði Magnús.

Háskólinn á Akureyri og námsbraut þeirra í sjávarútvegsfræðum verður til staðar með öfluga kynningu á starfinu á sýningarbás H52 á IceFish 2024.

UNAK

UNAK

[UNAK.jpg] Myndatexti: Nemendur í sjávarútvegsfræði safna gögnum í tengslum við mat á ástandi veiðistofna.