Tyrkneska skipasmíðastöðin Tersan hefur hleypt af stokkunum nýju veiðiskipi sem kallast Leinebris. Um er að ræða nýsmíði sem fyrirtækið lýsir sem „háþróaðri og sjálfbærri “, og var hún unnin í samstarfi við norska útgerðarfélagið Leinebris AS og skipahönnuðinn Skipsteknisk AS.
Hátækniskipið Leinebris sjósett.
Forsvarsmenn Tersan fullyrða að Leinebris boði miklar framfarir í bæði siglingatækni og umhverfisvernd. Tersan smíðaði skip með sama nafni árið 2015, sem útbúið var margvíslegum tækninýjungum. Þær nýjungar hafa verið þróaðar áfram allar götur síðan í því augnamiði að bæta sjálfbærni og innleiða hátæknilausnir, og er nýja Leinebris niðurstaða þeirrar vinnu. Talsmenn Tersan segja að skipið sé það fyrsta sinnar tegundar til að samþætta möguleikana á þremur mismunandi veiðiaðferðum, þ.e. línuveiði, nótaveiði og netaveiði. Skipstjórinn getur valið á milli þessara kosta í því skyni að tryggja árangursríkustu og umhverfisvænustu veiðiaðferðina hverju sinni, auk þess að draga verulega úr kolefnisspori skipsins.
„Það er mikill heiður fyrir okkur og ánægjuefni að hafa verið valin til að smíða nýja Leinebris, átta árum eftir að við afhentum forvera þess. Við erum sannfærð um að nýja Leinebris sé byltingarkennt skip í sjávarútvegi heimsins, ásamt því að tryggja útgerðarfélaginu Leinebris AS forystu í sínu merkilega brautryðjendastarfi,” segir Mehmet Gazioğlu, framkvæmdastjóri Tersan-skipasmíðastöðvarinnar.
Leinebris er 67,3 metrar að lengd og 15 metra breitt. Skipið er knúið framdrifnu dísil-rafkerfi og útbúið PU115 azimuth-skrúfum, en þær geta snúist 360° um lóðrétta ásinn og þannig skapað drifkraft í hvaða átt sem er. Það er einnig búið AR63 inndraganlegum þrýsti-skrúfuvélbúnaði (e. AR63 retractable azimuth combi thrusters) fyrir háþróaða stýringu. Þá er það útbúið BruCon PTC-stýrikerfi frá Brunvoll fyrir stillingu framdrifs-og skrúfukerfa, BrunCon JS-kerfi fyrir jafnvægisstillingar og Brunvoll Fishpilot-kerfi, sem gerir skipstjóranum unnt að einbeita sér frekar að veiðafærum og afla en stjórn skipsins.
„Þessar nýjungar gera Leinebris að framúrskarandi skipi,” segir Tersan.
Leinebris er útbúið stórum rafgeymum og þremur dísil-rafknúnum rafölum til að hámarka orkunýtingu. Allur vindu-og tækjabúnaður á þilfari er rafknúinn til að hægt sé að fullnýta orkuna sem framleidd er um borð í skipinu. Þar er einnig sjókælibúnaður til að hægt sé að flytja lifandi fisk.
Skipið hefur einnig tvær lestir, yfirbyggt vinnsluþilfar og vinnslustokk (e. moonpool) til að auka öryggi áhafnarinnar. Í skipinu eru vistarverur og aðbúnaður fyrir allt að 25 manns.
„Við erum ákaflega stolt á þessum tímamótum,” segir Paul Harald Leinebø, framkvæmdastjóri Leinebris AS. „Ég vil þakka Tersan og öllu teyminu okkar sem trúði staðfastleg á þetta verkefni. Með þessari nýsmíði getum við veitt hágæða hvítfisk á norsku miðunum næstu árin, samtímis því að ná markmiðum okkar um sjálfbærni og lágmarks kolefnisspor í sjávarútvegi.”