Virðiskeðjan í sjávarútvegi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og forsvarsmenn fyrirtækja í greininni eru í auknum mæli farnir að velta sér hvernig má breyta hliðar- og aukaafurðum sjávarfangs í verðmæti. Þetta kom fram í máli Þórs Sigfússonar, stofnanda og stjórnarformanns Íslenska sjávarklasans, á ráðstefunni Fish Waste for Profit sem haldin er samhliða IceFish í dag og á morgun.

Ráðstefnan er nú haldin í fimmta skipti og ber hún yfirskriftina „Breytum blá hagkerfinu í 100% grænt“. Þór segir að hugmyndafræðin 100% fiskur, sem snýst um betri nýtingu á bæði villtum fiski og eldifiski til að draga úr sóun og auka verðmætið, hafi náð miklum árangri á tiltölulega skömmum tíma.

 

Þór segir að sífellt fleiri um allan heim átti sig á því að með því að einblína eingöngu á framleiðslu flaka sé um tveir þriðju hlutar af hverjum fiski sóað, þess hluta sjávarfangs sem hann telur „vera þá verðmætustu“.

„Fólk er farið að koma saman til að ræða þessa hugmyndafræði og hún vex og styrkist hratt. Við erum loks að sjá hlutina gerast. Við höfum orðið vitni að margskonar jákvæðum breytingum í þessa veru á mismunandi svæðum um allan heim, og það er einnig ánægjuleg að sjá klasahreyfinguna styrkjast.“

Þrátt fyrir þessa vakningu er áætlað að enn fari að minnsta kosti 10 milljónir tonna af „fullkomlega nothæfum fiskúrgangi“ til spillis árlega í heiminum

„Við höfum hent þessum úrgangi sjávarfangs í mörg ár og það felast engin verðmæti í slíkri ástæðulausri sóun,“ segir Þór.

Hann segir að Íslenski sjávarklasinn hafi lært á undanförnum árum að til að yfirstíga fyrirliggjandi hindranir sé lykilatriði að tengja saman hagsmunaðila frá mismunandi hlutum virðiskeðjunnar. Með því að leiða saman fræðimenn, fulltrúa nýsköpunarfyrirtækja, markaðssérfræðinga og aðra forystumenn í faginu verði til flæði lausna og nýrra tekjustrauma. Þessir aðilar rýni í hugsanlegar áskoranir og uppgötvi ný tækifæri til verðmætasköpunar.

Með því að búa til slík tengsl og samtal á milli ólíkra hópa myndist traust, og af traustinu spretti margvíslegur ábati og þróun. Þór segir einnig að Íslenski sjávarklasinn hafi uppgötvað að ekki sé til ein lausn sem henti öllum þegar kemur að fullnýtingu sjávarfangs, vegna þess mikla muns sem sé á tegundum sjávarfangs og landfræðilegum aðstæðum og staðsetningu. En þegar vel takist til sé árangurinn gríðarlegur. Hann nefnir Kerecis í því sambandi, sem hefur gjörbreytt sárameðhöndlun með byltingarkenndri ágræðslu húðar úr fiskroði.

„Þetta er farsælasta fyrirtæki Íslands, metið á yfir 1,3 milljarða Bandaríkjadala, en það notar aðeins um 2 tonn af fiski,“ segir Þór. „Kerecis er afbragðs dæmi um það sem viljum gjarnan sjá koma frá öðrum fyrirtækjum á Íslandi og annars staðar í heiminum, þ.e. lausnir sem gera okkur kleift að búa til mikil fjárhagsleg verðmæti úr tiltölulega litlu magni hráefnis.“

Almenningur og fagaðilar þurfi einnig að sjá áþreifanlegar sannanir þess að hægt sé að búa til arðbærar vörur úr úrgangi. „Heildarmarkmiðið er að 10 milljónir tonna af úrgangi breytist í verðmæti, einn fiskur í einu,“ sagði Þór á ráðstefnunni.

Thor Sigfusson

Thor Sigfusson