Bandaríska tæknifyrirtækið Innovasea, sem sérhæfir sig í tækni fyrir fiskeldi, og norska fiskeldisfyrirtækið Mowi, hafa endurnýjað rammasamning sín á milli. Samningurinn felur í sér að Innovasea verður aðalbirgir Mowi á heimsvísu á sviði rakningarbúnaðar og hugbúnaðar fyrir allt laxeldi á vegum síðarnefnda fyrirtækisins, á öllum starfsvæðum þess.
Mowi er stærsta fiskeldisfyrirtæki í heimi og keypti m.a. rúmlega 51% hlut í Arctic Fish á Íslandi haustið 2022 fyrir 26 milljarða íslenskra króna.
Mowi hefur þegar tekið í gagnið á mörgum starfssvæðum sínum umhverfisvöktunarkerfi sem Innovasea þróaði. Uppsetningu kerfisins verður haldið áfram á næstum mánuðum og misserum, í tengslum við snjallvæðingu starfseminnar undir heitinu Mowi 4.0 Smart Farming, sem kalla mætti snjall-eldi.
„Í nútíma umhverfi fiskeldisfyrirtækja verða þau að vera stöðugt reiðubúin til að takast á við þær áskoranir sem upp geta komið varðandi umhverfismál og daglegan rekstur,” segir Arnt Mjøen, upplýsingatæknistjóri Mowi á sviði fóðurs og ræktunar. „Innovasea auðveldar okkur að veita gögnum viðtöku, greina þau hratt og bregðast við í samræmi við niðurstöðurnar. Þetta á bæði við Realfish Pro-vettvanginn og MowInsight-greiningarvettvanginn, sem við notum til að efla daglegan rekstur og til að styrkja vaxtarskilyrði fisksins.”
Með því að bæta við nýjum umhverfisnemum og kerfum í fiskeldisstöðvum sínum öðlast Mowi gleggri innsýn í umhverfið á viðkomandi vinnslusvæði, sem auðveldar stjórnendum að taka markvissari ákvarðanir fyrir hverja og eina stöð.
„Frá því við byrjuðum að vinna með Innovasea höfum við öðlast aukna þekkingu á aðstæðum í fiskeldisstöðvum okkar. Stöðugt flæði upplýsinga um náttúrufarið sem fiskurinn býr við er mikilvægt til að við getum bætt velferð hans og vöxt. Upplýsingarnar gera okkur einnig fært að taka hraðar og upplýstar ákvarðanir og við fáum dýrmæt gögn sem nýtast til að gera stöðvarnar og rekstur þeirra enn betri þegar fram líða stundir,” segir Henrik Trengereid, framkvæmdastjóri Mowi Group á tæknisviði sjóeldis.
Tækjabúnaður Innovasea sendir upplýsingar í rauntíma til miðlægs skýjagrunnar, svo sem um umhverfisþætti á borð við súrefnismagn, seltu og hitastig. Innovasea’s Realfish Pro.
Starfsfólk í fiskeldisstöðvum getur nýtt sér umhverfisvöktunarmælaborð Realfish Pro til að fylgjast með vatnsgæðum á mörgum stöðum í einu, og fær tafarlaust viðvörun ef ástandið versnar skyndilega. Stjórnendur stöðvanna, jafnvel þegar þeir eru fjarstaddir, geta stuðst við gögnin til að tryggja bestu hugsanlegu fóðrun og verndað fiskinn fyrir hættum sem kunna að steðja að honum.
„Mowi er leiðandi fyrirtæki í fiskeldi á sviði gagnadrifinnar tækni í heiminum, og við hlökkum til að halda áfram farsælu samstarfi okkar,” segir Tim Stone, aðstoðarframkvæmdastjóri Innovasea. „Háþróað fiskeldi (e. precision aquaculture) felst í að bæta framleiðsluna með markvissri notkun tækni og sjálfvirkni, og Mowi er tvímælalaust í fararbroddi í þeirri þróun. Við erum líka spennt að geta nýtt allar þær upplýsingar sem Mowi mun safna saman með notkun tækninnar frá okkur, með það að markmiði að efla enn frekar nýtingu og sjálfbærni í greininni.”