Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg og ís­lenska fyr­ir­tækið Hefr­ing Mar­ine hafa gert með sér sam­komu­lag, í því skyni að auka öryggið í björgunarskipum Landsbjargar og hagkvæmni í rekstri. Samkomulagið felur í sér að tæknibúnaðnum IMAS (Intelligent Marine Assistance System) frá Hefring verður komið fyrir í öllum nýjum skipum félagsins.

„Samkomulagið við Hefring Marine markar tímamót í stöðugri viðleitni okkar til að bæta hæfni áhafna okkar og flota,” seghir Björn Jóhann Gunnarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg. „Samþætting þessarar nýstárlegu tæknilausnar Hefring Marine við tækjakostinn fellur vel að áherslum okkar á öryggi og skilvirkni, og tryggir að áhafnir skipanna fái stuðning af bestu mögulegu tækni. Þær eru iðulega að glíma við erfið veðurskilyrði við björgunarstörfin og því mikilvægt að hafa sem bestan búnað við höndina.”

Nú þegar hafa verið gerðar tilraunir með búnaðinn í björgunarskipinu Þór í Vestmannaeyjum, sem þykja hafa tekist afar vel, og á grundvelli þeirra var tekin ákvörðun um að setja IMAS-kerfin í öll skip Landsbjargar.

 

Tækni­lausn Hefring Marine miðar að því að hámarka hæfni skipanna, draga úr eldsneytiskostnaði, lengja líftíma skipanna og lágmarka kolefnisspor, sem er í samræmi við alþjóðleg markmið um aukna sjálfbærni. Tæknin getur þessu til viðbótar aukið verulega öryggi skipverja, þar sem hún færir skipstjóranum ákveðið verkfæri til að bæta samstillingu hraða og hreyfingar skipsins þannig að líkamlegt álag á skipverja sé sem minnst, sérstaklega þegar siglingaaðstæður eru mjög krefjandi.

„Samkomulagið endurspeglar metnað okkar um að nýta IMAS-tæknina ekki aðeins til að auka hagkvæmni í rekstri, heldur einnig til að styrkja öryggismál á sjó,” segir Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Hefring Marine. „Með þessu samstarfi erum við að setja ný viðmið varðandi siglingaröryggi og nýsköpun.”

Búnaðurinn í björg­un­ar­skip­inu Þór verður nú upp­færður og sams­kon­ar búnaði komið fyr­ir í nýju björg­un­ar­skipum fé­lags­ins, Sig­ur­vini á Sigluf­irði, og Jó­hann­esi Briem í Reykja­vík. Fjórða skip fé­lags­ins, sem nú er í smíðum í Finn­landi, fær einnig búnaðinn frá Hefring Marine. Lands­björg áformar að endur­nýja öll þrett­án björg­un­ar­skip fé­lags­ins, sem staðsett eru hring­inn í kring­um landið, og munu öll þeirra verða búin tækjakosti frá Hefring Marine.

Hefring Marine verður á sýningarbás F51 á IceFish í september næst komandi og býður þar alla gesti hjartanlega velkomna.

 

Landsbjorg-Hefring 1

Landsbjorg-Hefring 1

 

[Hefring.png] Caption: IMAS-tæknibúnaðurinn frá Hefring Marine snýst um að hámarka getu skipa og lengja líftíma þeirra ásamt því að draga úr eldsneytiskostnaði og neikvæðum umhverfisáhrifum.