Þar á meðal verður viðskiptasendinefnd frá norðurhluta Kanada, skipuð fulltrúum frá fimm af sjö aðildarfyrirtækjum samtakanna Inuit Development Corporation Association (IDCA). Fyrirtækin fimm eru Qikiqtaaluk Corporation, Sakku Investments Corporation, Makivvik, Nunatsiavut Group of Companies og Nunasi Corporation. Í sameiningu mynda þau svæðisbundið eignarhaldsfélag sem á og stýrir margvíslegum fjárfestingum sem hafa mikið vægi fyrir hagkerfið í norðurhluta Kanada. Þar á meðal á sviði byggingaframkvæmda, flutninga, varnarmála og sjávarútvegs.

Aðildarfyrirtæki IDCA hafa einnig umboð til að efla efnhagslega velferð frumbyggja í Nunangat, heimalendum inútíta í Kanada, með þróunarverkefnum í viðskiptum sem samræmast samfélagslegum gildum inúíta og nýta að auki staðbundna þekkingu, reynslu og auðlindir á svæðinu. Í sendinefndinni verða einnig fulltrúar þriggja orkufyrirtækja í eigu inúíta, auk áðurnefndra fulltrúa aðildarfyrirtækja IDCA.

Vaxandi áhugi og samstarf

 „Við Íslendingar sjáum vaxandi áhugi á aukinni stjórn á fiskveiðiauðlindum frumbyggja og samfélaga í norðurhluta Kanad,“ segir Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada, í samtali við IceFish. „Innifalið er raunverulegur áhugi á fiskirannsóknum og gagnasöfnun með það fyrir augum að tryggja sjálfbærni auðlinda sjávar og greina nýjar tegundir til staðbundinnar neyslu og fyrir viðskiptamarkaði.“

Hlynur kveðst líka skynja vaxandi áhuga á fullnýtingu fiskveiðiauðlindarinnar, á sama hátt og tíðkast hérlendis. „En það verður auðvitað segjast að frumbyggjar Kandada hafa stundað slíkar veiðar og nýtingu frá örófi alda. Við erum líka að upplifa vaxandi fjárfestingar í nýjum vinnslubúnaði og nútímavæðingu skipa, ásamt því að viðskiptamarkaðir í Kanada eru að opnast fyrir nýjum samstarfsaðilum erlendis frá, til dæmis við fjármögnun, sölu og markaðssetningu.“

 

Nýr innblástur

 Þær áherslur sem greina má hjá sendinefnd IDCA á IceFish í september, þ.e. sjávarútvegur, orkumál og ferðaþjónusta, endurspegla þau svið viðskipta sem íslensk fyrirtæki og stofnanir hafa náð traustri fótfestu á seinustu áratugi. Íslendingar, lítil sjálfstæð þjóð á norðurhjara, hafa haft tiltölulega fá úrræði önnur en að rækta fyrirtæki á þeim afmarkaða vettvangi en gert það með þeim hætti að þeir hafa náð að dafna vel í númtímaviðskiptum. Þrátt fyrir bæði fámenni og landfræðilegar áskoranir hafi Íslendingar náð ákaflega góðum árangri í efnahagsmálum, sem veitir fyrirtækjum og samfélögum í norðurhluta Kanada mikinn innblástur.

IDCA-samtökin telja að aðildarfélög þess standi að mörgu leyti frammi fyrir keimlíkum áskorunum í viðskiptum og Íslendingar hafa gert í gegnum tíðina, í viðleitni sinni til að styðja umrædd svæði á norðurslóð til að verða efnahagslega sjálfbjarga og rækta fjölbreyttari atvinnuvegi þar. Því geti aðildarfélögin sótt margvíslega þekkingu til Íslendinga.

„Íslendingar skara fram úr í mörgum atvinnugreinum sem eru líka mikilvægar fyrir norðurhluta Kanada. Þess vegna vonumst við til að heimsóknin í september nk. geri okkur kleift að fræðast betur um þær leiðir sem Íslendingar hafa farið til að skara fram úr á mikilvægum mörkuðum,“ segja forsvarsmenn IDCA. Þeir hafa t.d. áhuga á finna nýjar aðferðir til að hámarka verðmæti í sjávarútvegi, svo sem með aukinni vinnslu á fiskúrgangi til að breyta honum í virðisaukandi afurðir.

 

Norrænar lausnir á norrænum vandamálum

 Fulltrúar IDCA úr orkugeirandum vonast einnig til að fræðast um tækni sem hjálpað getur norðurhluta Kanada til að framleiða sjálfbæra og hagkvæma orku fyrir samfélögin og fyrirtækin sem þar eru að finna. Ekki síst er það brýnt í ljósi mikils orkukostnaðar á svæðinu og þess hversu brýnt er að draga úr kolefnislosun samfara orkuvinnslu.

„Íslendingar hafa þróað norrænar lausnir á norrænum vandamálum,“ segja forsvarsmenn IDCA, „og því viljum við eiga innihaldsríkar samræður við hagsmunaaðila á Íslandi um þær lausnir, en einnig leggja af mörkum eigin reynslu og hugmyndir í komandi viðræðum.“

 Hlynur Guðjónsson sendiherra kveðst líta á þessa heimsókn sendinefndarinnar sem dýrmætt tækifæri til að færa samskipti Íslendinga við nyrsta og austasta hluta Kanada á næsta stig ef svo má segja, til hagsbóta fyrir bæði íslensk fyrirtæki og fyrirtæki í eigu frumbyggja þar í landi. „Við vonumst til að ferðin leiði til aukin samstarfs Íslendinga og inúíta í tækni, fjármálaþjónustu, vísindarannsóknum, fiskveiðistjórnun og samþættingu sölu- og markaðskerfa, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hlynur.

„Við eygjum líka mikla möguleika á að miðla sérfræðiþekkingu Íslendinga varðandi fullnýtingu sjávarafurða. Þó svo að íslensk fyrirtæki, sérstaklega í líftækni og vinnslu, hafi verið leiðandi í nútímanum í fullnýtingu sjávarfangs, geta Íslendingar væntanlega lært margt af þeim aðferðum sem frumbyggjar Kanada hafa beitt óralengi til að nýta til fulls hverja einustu skepnu sem hægt er að veiða á landi og sjó. Við lítum því á þessa heimsókn IDCA-samtakanna sem upphafið að miklu dýpra og víðtækara samstarfi á norðurslóð.“

 

Samskiptin efld og endurnýjuð

 Hlynur minnir einnig á að lengi vel hefur gildur strengur legið á milli Íslands og Kanada og bendir á í því sambandi að á næsta ári verður haldið upp á 150 ára afmæli flutninga fjölmargra Íslendinga til Kanada, Vesturfaranna svokölluðu. Í raun og veru séu hvergi fleiri af íslensku ætterni en í Kanada, fyrir utan Ísland auðvitað. Þá hafi formleg diplómatísk samskipti landanna varað í nær áttatíu ár og verið farsæl. Fríverslunarsamningur EFTA og Kanada frá 2009 hafi líka tryggt nánast tollfrjáls viðskipti á milli landanna um árabil.

Undanfarin misseri hafa Kanadamenn lagt aukna áherslu á samvinnu á norðurslóð með það í huga að auka bæði tækifæri á þeim vettvangi og draga úr vægi samstarfs til suðurs, sem hefur verið nánast allsráðandi í viðskiptum og menningu þar í landi svo lengi sem elstu menn muna. Þessa nýja áhersla skapar nýja möguleika fyrir bæði íslensk og kanadísk fyrirtæki.

Íslendingar hafa aðallega flutt sjávarafurðir til Kanada gegnum tíðina, en samstarfið ristir dýpra heldur en eingöngu hvað varðar fiskmeti og nær t.d. til vélbúnaðar, fjármögnunar og fjárfestinga, rannsókna og skipasmíði- og viðhalds. Sem dæmi um það má nefna að Slippurinn á Akureyri lauk fyrr á þessu ári við meiriháttar endurbætur á frystitogaranum Saputi frá Qikiqtaaluk Fisheries, en það fyrirtæki hefur aðsetur í bænum Iqaluit, sem telst höfuðstaður Nunavut-svæðisins í Kanada.

 

Horfa til Íslands sem fyrirmyndar

 „Þar að auki hafa íslensk fyrirtæki hagsmuni af sölu og markaðssetningu sjávarafurða frá Kanada til Evrópu, Norðurlandanna og til Asíu, þar sem íslensk fyrirtæki hafa langvarandi og traust markaðstengsl,“ segir Hlynur.

„Við vitum að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í austasta hluta Kanada, þ.e. Nova Scotia, New Brunswick, Prince Edward Island, Nýfundnaland og Labrador, horfa til Íslands sem fyrirmyndar þegar kemur að sjálfvirkni í vinnslu og fullnýtingu hliðarafurða sjávarfangs,“ segir Hlynur. „Íslenskar fjármálastofnanir hafa líka þjónustað ótal mörg kanadísk fyrirtæki um áratugaskeið og það er greinilegur endurnýjaður áhugi á að efla samstarfið við íslenska banka og önnur fyrirtæki sem veita sambærilega fjármálaþjónustu. Það er því margt spennandi að gerast hvað varðar aukin samskipti og samstarf íslenskra og kanadískra aðila, þar með talið auðvitað á norðurslóð, einsog þessi ferð IDCA-sendinefndarinnar til Íslands í september sýnir glöggt.“

21686-0127