Nýtt skip útgerðarfélagsins Gjögurs, Hákon ÞH-250, er komið til landsins. Nýja skipið er útbúið fullkomnum frystibúnaði, alls 75,4 metra langt, og leysir af hólmi nafna sinn, sem er 76 metra langt skip. Hákon eldri var smíðaður fyrir rúmum tveimur áratugum, útbúinn til nóta og togveiða.
Hákon ÞH-250 við bryggju í skipasmíðastöð Karstensen á Skagen í Danmörku.
Gjögur fylgir þeirri þróun með nýja skipinu að hætta vinnslu um borð. Nýi Hákon er uppsjávarveiðiskip/togari og nótaskip sem er eingöngu búið kælitönkum fyrir hringrásarvatn (RSW). Skipið er annað af tveimur systurskipum sem íslenskar útgerðir sömdu við dönsku skipasmíðastöðina Karstensens að smíða, en hitt skipið er í eigu Skinney-Þinganes á Höfn í Hornarfirði.
Hákon, sem er 75,4 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd, sigldi frá skipasmíðastöð Karstensens á Skagen í Danmörku áleiðis til Íslands í október síðastliðnum. Afhending þess hérlendis tafðist þó lítillega vegna vélabilunar sem upp kom í Færeyjum. Eftir skamma viðdvöl í Reykjavík hélt Hákon í sína fyrstu veiðiferð og aflaði vel.
Hákon ÞG-250 er byggður eftir hönnun skipasmíðastöðvarinnar. Skrokkurinn er framleiddur hjá Karstensen Shipyard Poland í Gdansk en hann var síðan fluttur til höfuðstöðva fyrirtækisins á Skagen og þar lokið við frágang og smíði. Hönnun skipsins og búnaður voru unnin í samstarfi við bæði Gjögur og Skinney-Þinganes, með því markmiði að smíða háþróað uppsjávarveiðiskip með 2.500 rúmmetra burðargetu í 13 RSW tönkum, hannað fyrir bestu mögulegu aflameðferð, hagkvæmni í rekstri og þægindi fyrir áhöfn.
SeaQuest búnaður
Dekkið er útbúið tveimur netatromlum, sem standa hlið við hlið. Þær eru staðsettar á bakborða og samstilltar við vökvastýrðar hliðgrindur til að vinna með togveiðarfæri. Lögunartankur fyrir nótaveiðar er staðsettur á stjórnborða.
SeaQuest Systems afhentu fullbúinn búnað fyrir dekk skipsins. Þar á meðal eru tvær 91 tonna togvindur sem stjórnað er með sjálfvirkjum SeaQuest-togbúnaði. Netatromlurnar tvær geta hvor um sig dregið 110 tonn. Búnaðurinn inniheldur einnig 57 tonna „tail end“ vindu, 20 tonna „end-wire“ vindu, og vindu með netnemum, sem er fest á afturgálga.
Nótavindurnar eru um 40 tonna þungar einingar, studdar af tveimur 16 tonna aukavindum. Nótaveiðibúnaðurinn inniheldur 40 tonna netdráttartæki, krana fyrir netstafla, sem er staðsettur á afturgálga, ásamt flotlínu- og botnlínustaflakerfum.
Þá er skipið búið tveimur tuttugu tommu vökvaknúnum fiskdælum frá SeaQuest, ásamt slöngum og dæluhjólum. Hákon ÞH er einnig með 4 tonna/18 metra krana frammí og 3,5 tonna/13 metra krana aftan á skipinu til að tengja fiskdæluna við skut meðan á notkun stendur. SeaQuest afhenti einnig tvö háþrýstivökvakerfi; eitt fyrir vindur og krana og annað fyrir fiskdæluna og tengdan búnað.
Afl-og kælibúnaður
Aflanum er dælt frá veiðarfærum að flokkunarstöð á framdekkinu og fer eftir valið í RWS-tankana. Þeir eru kældir með tvöföldu PTG FrioNordica kerfi, þar sem hvort kerfi hefur 1.300 kW/1.118.000 kCal/klst kæligetu. Það eru einnig tvær 960 rúmmetra/klst hringrásardælur og tvær 260 rúmmetra/klst eimingardælur. C-Flow útvegaði tómarúmskerfið með tveimur 4.200 lítra tönkum.
Aðstaða um borð
Maritime Montering ber ábyrgð á aðstöðu áhafnar Hákons, sem er glæsileg. Á aðaldekki eru fjórar einstaklingskáetur með sér-baðherbergi, auk þvottahúss og líkamsræktar. Á skjóldekki eru fimm káetur og sjúkrastofa ásamt búningsherbergi og regnfata- og skógeymslu. Á neðra þilfari eru borðstofa, eldhús, geymslurými fyrir birgðir, dagstofa og sjónvarpssetustofa. Á efra bátsþilfari eru fjórar káetur yfirmanna.
Aflbúnaður og vélakerfi
Aflkerfi Hákons er frá Wärtsilä og inniheldur 5.200 kW 8V31 aðalvél sem knýr 4.000 mm 4G1005 skrúfu í gegnum SCV95-PDC58 gírkassa með aflúrtaki fyrir Marelli-snúningsrafal á öxul.
Karstensens hefur þróað orkuhlið skipsins með þeim hætti að aflúrtakið er tengt til að framleiða rafmagn þegar veiðarfæri eru notuð. Vindukerfið krefst fulls afls við þær aðstæður, en þörf á vélarafli fyrir siglingarþætti skipsins er hins vegar í lágmarki á meðan. Þetta fyrirkomulag gerir aðalvélinni kleift að vera aðalorkugjafinn bæði fyrir skrúfukerfi og dekkkerfi.
Við togveiðar er hægt að af-kúpla öxulrafalinn og uppfylla raforkuþörf skipsins með því að nota 940 kWe og 565 kWe Caterpillar rafstöðvarnar til að framleiða rafmagn fyrir skipið, en þær tengjast aðaltöflunni með DEIF-aflstjórnunarkerfi.
Rafmagnskerfið er fyrir breytilegar tíðnistillingar (60-50 Hz), með tíðnibreytum fyrir 400/440V og UPS hreinum straum fyrir 230V. Þetta gerir kleift að minnka vélarhraða og skrúfuhraða um 17%.
Skjábúnaðurinn sem snýr að stjórnsætum í brú Hákonar.
Þægindi í brúnni
Í stýrishúsi Hákons eru tveir Nor-Sap 1600 stólar sem snúa að upplýsingaskjákerfi með átta skjám. Þeir sýna gögn sem berast úr raftækjum frá Sónar, Simberg og Marport, sett upp af KS Elektro. Allir sónararnir eru frá Simrad og innihalda ST-94 með lágtíðni, MF-90 með miðtíðni, SN-90 framstefnissónar og FS-70 togsónar. Einnig er WASSP 160kHz 3D sónar. Aðal dýptarmælir er Simrad ES-80.
Stýrisbúnaðurinn inniheldur JRC-straummæla, Marport-netmælingarkerfi og JRC ECDIS-siglingatæki, ásamt Olex 3D og MaxSea Time Zero-kortaplotturum. Radar, GPS, AIS og GPS áttaviti eru frá JRC, en gyróáttaviti og sjálfstýring eru frá Simrad. Tvö Starlink gervihnattasamskiptakerfi eru um borð ásamt Sailor GMDSS A3 kerfi og Intellian gervihnattasjónvarpi.