Þrír námsstyrkir úr menntasjóði Íslensku sjávarútvegssýningarinnar voru afhentir með formlegum hætti á IceFish 2024 í dag. Handhafar námsstyrkjanna 2024 eru þrír talsins, úr stórum hópi umsækjenda, og stunda allir nám við Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Hver þeirra hlýtur 300 þúsund króna til hvatningar til áframhaldandi náms.

Í kjölfarið á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2014 gerðu forsvarsmenn sýningarinnar sér grein fyrir nauðsyn þess að fjárfesta í framtíð sjávarútvegarins á Íslandi og settu á stofn menntasjóð til að veita námsstyrki til efnilegra nema innan geirans. Fyrsti námsstyrkurinn var veittur árið 2017 og nú hafa alls fjórtán styrkir verið veittir.

Styrkina úr IceFIsh-menntasjóðnum hljóta að þessu sinni þær Klaudia Magdalena Lenkiewicz, sem lokið hefur námi í fisktækni og stundar nú framhaldsnám í gæðastjórnun, Beata Mroz, sem lokið hefur námi í fisktækni og stundar nú framhaldsnám í gæðastjórnun, og Þórdís Ýr Snjólaugardóttir, sem lokið hefur námi í gæðastjórnun og ætlar nú að bæta við sig fiskeldistækni.

„Atvinnuveiðar og fiskeldi eru meginstoðir íslensks atvinnulífs og sóknin eftir yfirburðum er óþreytandi á því sviði. Það er því ákaflega mikilvægt að efla stöðugt menntun og þekkingu þeirra sem starfa í þeim geira,” segir Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri IceFish 2024, „ Við óskum styrkþegum 2024 innilega til hamingju og vonum að þeir muni leggja sitt af mörkum til blómslegs íslensks sjávarútvegs um ókomin ár, með sérfræðiþekkingu sinni, kunnáttu og menntun.”

Þórdís Ýr Snjólaugardóttir segir námsstyrkinn vera mikla hvatningu fyrir sig og komi sér einstaklega vel í framhaldsnámi hennar í fiskeldistækni. „Ég er rennismiður að mennt og var stundum orðin þreytt á að fá í hendur verkefni sem ekki voru sniðin að þörfum og kröfum þeirra sem vinna við tækjabúnaðinn sjálfan. Ég vil öðlast aukinn skilning á hvernig búnaðurinn virkar og hvernig best er að leysa tæknileg vandamál á sem hagkvæmastan og einfaldastan hátt. Styrkurinn er mjög mikilvægur til að öðlast aukna þekkingu á þeim vettvangi,” segir Þórdís Ýr. 

Klaudia Magdalena Lenkiewicz kveðst ekki hafa átt von á að hljóta námsstyrk IceFish en hann komi sér ákaflega vel. „Ég hafði talsverðar áhyggjur af framhaldi námsins vegna aukins framfærslukostnaðar og áskorana því samfara, og það er því frábært að fá þennan stuðning til frekari náms, auk þeirrar hvatningar sem í styrknum felst. Námsstyrkurinn gefur mér kost á að sinna náminu af fullum krafti og það er hreint stórkostlegt,“ segir Klaudia.

Umsóknir um styrki voru metnar af dómnefnd sérfræðinga í sjávarútvegi, Fisktækniskóli Íslands var stofnaður í Grindavík árið 2010 í því skyni að svara þörfum íslensks sjávarútvegs og landvinnslu með því að mennta hæft fólk til starfa í greininni. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í fisktækni, fiskeldi, gæðastjórnun og Marel vinnslutækni.

 

WhatsApp Image 2024-09-20 at 14.54.56 (1)