Aflaverðmæti við fyrstu sölu var 125,7 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands. Þetta eru 19% minni aflaverðmæti en á sama tímabili 2023, þegar verðmæti við fyrstu sölu nam tæpum 155 milljörðum króna.
Heildarveiði íslenska flotans dróst alls saman um 34% miðað við sama tímabil í fyrra, einkum vegna loðnubrests. Heildarveiðin fyrstu níu mánuðina 2024 var 741 þúsund tonn samanborið við 1.120 þúsund tonn á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.
Botnfiskaflinn nam 317 þúsund tonnum á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2024, sem er 6% meira en í fyrra. Verðmæti þess afla var 94,5 milljarðar króna, sem er sambærilegt við árið á undan.
Ýsuaflinn jókst um 28% milli ára og var verðmæti hans 14,7 milljarðar á tímabilinu, sem er 4% meira en í fyrra.
Þorskaflinn jókst um 3% og skilaði um 60 milljörðum króna.
Uppsjávarafli árið 2024 nam alls 403 þúsund tonnum, sem er 49% minni afli en í fyrra. Verðmæti þessa afla var 21,5 milljarðar króna sem er 55% samdráttur.
Fyrrnefndur loðnubrestur er helsta skýringin á lækkun á verðmæti uppsjávarfisks. Síldaraflinn dróst saman um 35% í 64.760 tonn og lækkaði að verðmæti um 38% niður í 5,2 milljarða. Makrílafli Íslendinga dróst saman um 37% í magni og fór niður í 89.530 tonn, sem leiddi til 43% samdráttar á verðmæti, en það nam alls um 7,3 milljörðum króna á umræddu tímabili.
Á sama tíma dróst afli flatsfisks saman um 3% og nam tæplega 17 þúsund tonnum. Skelfisksafli dróst saman um 42% og var rúm 2.800 tonn. Verðmæti flatfisks nam alls 8,9 milljörðum króna, sem er tólf prósent lækkun á milli ára, en verðmæti skelfisksins nam 712 milljónum króna, sem er 33% lækkun á milli ára.