Slippurinn DNG og norska fyrirtækið Brunvoll AS tilkynntu á IceFish 2024 í gær um samstarf sitt, sem felur í sér að Slippurinn DNG verður nýr umboðsaðili Brunvoll á Íslandi. Samkomulagið felur í sér að Slippurinn DNG muni m.a. sjá um sölu á vörum Brunvoll, varahlutum og annast viðhaldsþjónustu. Slippurinn DNG fagnaði því einnig í dag að hafa selt 20 DNG-R1 færivindur á sýningunni.

Brunvoll er í hópi þekktustu framleiðenda á sínu sviði á heimsvísu, en það sérhæfir sig í framleiðslu á skrúfum og gír-og stjórnbúnaði fyrir skip. Fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá því það var stofnað árið 1912. Í gegnum tíðina hafa margar íslenskar útgerðir notað búnað frá Brunvoll fyrir skip sín. Stig Helland, sölustjóri Brunvoll, segir að löng saga fyrirtækisins einkennist af góðu samstarfi við Íslendinga og að markaðurinn hérlendis sé mjög mikilvægur fyrir reksturinn. Samstarfið við Slippinn DNG muni treysta þessi tengsl til framtíðar.

„Við horfum til sölu á bæði búnaði og varahlutum, en ekki síst sjáum við fyrir okkur að Slippurinn DNG muni þjónusta notendur búnaðarins sem við framleiðum, sem skiptir okkur miklu. Slippurinn DNG hefur traust orðspor sem reynslumikið fyrirtæki í skipaiðnaði og býr yfir þekkingu á öllum þáttum hans. Við hjá Brunvoll erum við því hæstánægð með þetta samstarf, “ segir Stig.

Hann kveðst líka telja að samstarfið verði viðskiptavinum þeirra hérlendis hagfellt. Þá sé staðsetning Slippsins DNG á Akureyri ákaflega góð að hans mati, sérstaklega með tilliti til þjónustu við útgerðir sem sigla á norðurslóðum, þar á meðal norskar útgerðir sem nota búnað frá Brunvoll.

Bjarni Pétursson, sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins DNG, kveðst telja að samstarfið við Brunvoll marki stórt framfaraskref fyrir fyrirtækið.

„Brunvoll er heimsþekktur og stór framleiðandi með mikla sérþekkingu á skrúfum, gírum og stjórnkerfum skipa, sem styrkir okkur verulega í skipaþjónustunni. Þekkingarsvið starfsmanna okkar breikkar enn frekar með tilkomu samstarfsins við Norðmennina og við höfum nú þegar sent starfsmenn frá okkur á námskeið hjá Brunvoll í Noregi.“

Bjarni bendir á að Brunvoll hafi víðtæk sambönd við sjávarútvegsiðnaðinn vítt og breitt um á jarðkringlunni, og hann eigi von á að tengslanet Slippsins DNG muni stækki verulega í kjölfar samstarfsins. „Ég held að þetta samstarf muni skapa viðskiptavinum okkar á Íslandi og erlendis heilmikinn ávinning, auk þess að vera mikilvægt skref fram á við fyrir skipaþjónustu Slippsins DNG,“ segir hann.

Slippurinn DNG fagnaði ekki aðeins samstarfinu við Brunvoll á IceFish 2024, heldur einnig frábærri sölu. Fyrirtækið seldi tuttugu eintök af DNG-R1 færivindum á sýningunni og því óhætt að segja að það hafi gert góða ferð á IceFish 2024.