JBT Marel hefur valið skoska fyrirtækið Ace Aquatec sem samstarfsaðila til að efla orðspor sitt á sviði sjálfbærs fiskeldis með áherslu á mannúðlega meðhöndlun við slátrun, en Ace Aquatec hefur þróað hentuga lausn til að rota fisk með rafstraumi.
Samstarfið gerir fiskeldisfyrirtækjum kleift að auka hagkvæmni, lækka framleiðslukostnað og efla framleiðslu á hágæðafiski, samtímis því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
„Samstarf okkar við Ace Aquatec markar stefnu um sjálfbærni og aukna áherslu á velferð fisksins, ásamt því að styrkja skuldbindingar okkar á sviði nýsköpunar,” segir Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Marel Fish, sem ber ábyrgð á vöruþróun, sölu, framleiðslu og þjónustu fyrir viðskiptavini JBT Marel í fiskiðnaði.
„Með því að sameina sérfræðiþekkingu okkar í fiskvinnslu og frábæra tækni Ace Aquatec getum við skilað alhliða lausn með áherslu á skilvirka og miskunnsama meðhöndlun.”
Siðferðisleg sjónarmið í sjávarútvegi
Hann segir samstarfið jafnframt vera svar við auknum kröfum um siðferðilegar og sjálfbærar áherslur í vinnslu sjávarfangs og bendir m.a. á að 85% breskra neytenda segjast styðja aukin velferðarsjónarmið í meðhöndlun sjávarfangs.
Forsvarsmenn Ace Aquatec segja að tæknilausn þeirra, sem kallast Humane Stunner Universal (A-HSU) og hefur hlotið verðlaun fyrir nýsköpun, tryggi að fiskurinn rotist á innan við sekúndu, dragi úr streitu við slátrun og bæti gæði vörunnar.
Kerfið fellur fullkomlega að fiskvinnslulausnum JBT Marel og býður vinnslustöðvum upp á hnökralausa, rekjanlega og hagkvæma nálgun þegar kemur að framleiðslu fiskmetis.
„Samstarfið endurspeglar sameiginlegan metnað okkar til umbreyta fiskeldisgeiranum,” segir Nathan Pyne-Carter, forstjóri Ace Aquatec. „Við setjum í sameiningu ný viðmið varðandi velferð fisksins, sjálfbærni og nýsköpun.”