AKVA Group fagnar þeim árangri sem náðst hefur með rekstri hringrásarkerfa fyrirtækisins fyrir laxaseiðaeldi, svokölluðum RAS-kerfum, hjá Laxey í Vestmannaeyjum. Laxey fékk þriðja skammt sinn af laxahrognum í júlí á þessu ári. Fyrri skammtarnir tveir eru nú í góðu yfirlæti í tveimur af þeim þremur RAS-kerfum sem búið er að panta.

RAS-3 er síðasta viðkomustaðurinn áður en seiðin verða eftir tólf vikna dvöl flutt yfir í áframeldið úti í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum. Þar af leiðandi eru öll kerfi seiðastöðvarinnar orðin starfhæf og fullkláruð.

Samstarf Laxeyjar og AKVA hófst árið 2022 með samningi um byggingu fyrstu alvöru RAS-stöðvar Íslands fyrir laxaseiði í Vestmannaeyjum. Um er að ræða eina rekstrareiningu með þremur RAS-kerfum, en aðstaðan er hönnuð til að nýta fjóra skammta af hrognum á ári og er áætluð ársframleiðsla um fjórar milljónir seiða sem hvert er um 100 grömm.

„Við erum ánægðir með reynsluna af þessu kerfum, sem byggjast á kjarnatækni AKVA Group. Kerfin hafa verið að skila frábærri niðurstöðu og seiðavöxturinn verið mjög góður,“ segir Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Laxeyjar.

Seiðaklakið hófst í nóvember 2023 og í framhaldi af því var tekið í gagnið fyrsta fóðurkerfið, RAS01, í desember. Fóðrun í klakstöðinni RAS01 hófst í febrúar 2024 og skömmu síðar voru RAS02 og RAS03 tekin í gagnið. Fyrirtækin hafa verið í nánu samstarfi allan tímann og Laxey keppst við að vera skrefi á undan AKVA Group til að hægt væri að tryggja hnökralausa uppbyggingu og uppsetningu búnaðar.

„Verkefnið kallar á mikla teymisvinnu og samstarf og við erum stolt af því að hafa lagt okkar af mörkum til þróunar stöðvarinnar hjá Laxey, og náð að ljúka okkar verkum innan umsamins tímaramma allt frá upphafi,“ segir Mads Skøtt, verkefnastjóri hjá AKVA.

Þegar seiðin úr RAS-kerfunum ná 100 grömmum að þyngd eru þau flutt í áframeldið, þar sem þau dafna í jarðsjó sem sóttur er í 30 metra djúpar borholur. Kerfið fyrir áframeldið samanstendur af sex kerjum, hvert um sig átján metrar í þvermál og taka rúmlega 900 rúmmetra af sjó. Kerfið er nú á lokastigi framkvæmda. Þegar seiðin í þessu kerfi hafa náð um 500 grömmum að þyngd flytjast þau yfir í lokakerfið, svokallað Grow-out, fyrir endanlega ræktun upp í 5-6 kílóa fisk í markaðsstærð.

Alls verða sex einingar reistar fyrir eldið, hver þeirra með átta fiskeldiskerjum. Kerin fyrir áframeldið eru 28 metrar í þvermál, rúmir 13 metrar á hæð og hvert þeirra mun rúma 5000 rúmmetra af sjó. Úr hverri einingu má fá 40 þúsund rúmmetra eldisgetu. Uppsetning þriðja áfanga stendur nú yfir og fyrsta uppskeran og slátrun verður síðan tilbúin haustið 2025 að óbreyttu.

Eftir að AKVA gekk frá RAS-seiðakerfunum hjá Laxey hefur fyrirtækið haldið áfram hönnun og samsetningu fyrir seinni áfanga eldisins. Á verksviði AKVA er m.a. gæðaeftirlit með vali Laxeyjar á verkfræðibúnaði og hönnun, afhending sjálfstæðra íhluta, vélræn og rafræn uppsetning vinnslubúnaðar og gangsetning undirkerfa.

Hallgrímur segir Laxey hafa valið AKVA vegna sérfræðiþekkingar fyrirtækisins á sviði verkfræði og hönnunar sem búið sé að sannreyna, getu þess til að afhenda sjálfstæða íhluti í háum gæðum og skilvirkri uppsetningu á vél-og rafbúnaði.

„Val okkar byggðist á góðri reynslu okkar af fyrra samstarfi við AKVA um klakkerfi, þar sem lagður var traustur grunnur að gagnkvæmum vilja um áframhaldandi samstarf,“ segir Hallgrímur.

Starfandi stjórnarformaður Laxeyjar, Lárus Ásgeirsson, segir áframhaldandi samstarf fagnaðarefni. „Við gerum ráð fyrir að stækka enn frekar verksvið AKVA og hlökkum til náins samstarfs til margra komandi ára um þetta viðamikla eldisverkefni á landi,“ segir Lárus.

Markmið Laxeyjar er að framleiða 32.000 tonn af fullbúnum laxi fyrir árið 2031. Fyrsti hluti eldisverkefnisins, sem nú stendur yfir, gerir ráð fyrir um framleiðslu á um 5.300 tonnum á ári. Fyrirhugað er að fjármögnun um næstu einingu verði lokið fyrir árslok 2024 og framkvæmdir hefjist fyrri hluta árs 2025.

 

 

Laxey AKVA

Laxey AKVA

 

 

[Laxey AKVA.jpg] Myndatexti: Skammtur af hrognum fluttur frá klakstöðinni yfir í RAS 1.