Kanadísku-bandarísku samtökin Great Lakes St Lawrence Governors & Premiers (GSGP) haga um langt skeið horft upp á minnkandi veiði á heimamiðum. Til að bregðast við þeirri öfugþróun hafa þau ákveðið að blása til nýrrar sóknar með að innleiða hugmyndafræðina um 100% nýtingu aflans.

 

GSGP hefur höfuðstöðvar sínar í Chicago og eru mynduð af stjórnvöldum ríkjanna sem liggja að Vötnunum miklu, The Great Lakes, á landamærum Kanada og Bandaríkjanna, ásamt yfirvöldum í Onatorio og Québec.

David Naftzger, framkvæmdastjóri GSGP, sagði á fimmtu Fish Waste for Profit ráðstefnunni í dag að samtökin hafi sett á laggirnar verkefnið 100% Great Lakes Fish fyrir tveimur árum. Það var gert vegna þess að forsvarsmenn samtakanna horfðust loks í augu við að fullnýting sjávarfangs gæti skapað veruleg verðmæti og verið lyftistöng fyrir bæði hefðbundnar fiskveiðar og uppbyggingu fiskeldisiðnaðarins á svæðinu.

 

Eftir að hafa séð hvítafiskastofninn við Vötnin miklu skreppa saman og nálgast hrun á sumum svæðum, komust GSGP-menn að þeirri niðurstöðu að ekki væri nóg að byggja stofninn upp að nýju til að leysa vandann. Slíkar tilraunir myndu ekki duga til fulls til að mæta aflabrestinum.

„Á sama tíma höfum við séð að hugmyndafræðin um 100% nýtingu sjávarfangs hefur náð góðum árangri hér á Íslandi og annars staðar þar sem henni hefur verið hrundið í framkvæmd. Við vitum nú að við getum skapað meiri verðmæti úr fiskveiðunum okkar, jafnvel þó að aflinn minnki,“ segir David Naftzger.

Naftzger segir að ferlið hafi byrjað með einfaldri greiningu til að reyna að skilja hvað væri að gerast í fiskveiðum við Vötnin miklu. Þegar sú greining lá fyrir tók GSGP að leita frekari svara við þeim spurningum sem hún kveikti og hófu einnig að styrkja „menningarlega samvinnu“ á svæðinu með þáttöku ýmissa leiðandi aðila í fiskveiðum og tengdum stofnunum.

Fiskveiðarnar snerust áður að mestu um framleiðslu á flökum en nú er horft til þess að auka vöruúrvalið, gera rannsóknaráætlanir, úttektir á virðisaukakeðjunni og nýja samstarfssamninga.

„Við ætlum að greina efnahagslegan og umhverfislegan ávinning af þessum mismunandi kostum og tækifærum til að finna hvað hentar best fyrir svæðið okkar, sjálfbærustu niðurstöðuna fyrir umhverfið, og hvað mun hafa mestan efnahagslegan áhrifamátt á efnahagssviðinu,“ sagði Naftzger.

 

David Naftzger

David Naftzger