Verkís hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum tengdum orkuskiptum í gegnum árin og veitir fjölbreytta þjónustu á því sviði sem stöðugt færist í vöxt. Þó að orkuskiptum í landflutningum miði vel stendur heimsbyggðin frammi fyrir gríðarlegum áskorunum varðandi orkuskipti í siglingum, bæði sjóflutningum og veiðum. Verkís hefur nú þegar stýrt tveimur viðamiklum nýsköpunarverkefnum sem helguð eru orkuskiptingum í sjóflutningum með rafeldsneytis-lausnum og vind-og sólorkutækni. Nefnist annað verkefnið GAMMA og hitt WHISPER.

GAMMA (green-gamma.eu) er um 2,5 milljarða króna orkuskiptaverkefni til fimm ára, sem Evrópusambandið styrkir. Verkefnið felst í að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum með endurbótum á flutningaskipi í rekstri (e. retrofit) og koma svo lausnunum á markað. Eldsneytiskerfið á ekki að draga úr rekstrargetu skipsins og prófanir fara fram um borð á siglingu. Ammoníak og lífmetanól eru flutt um borð í skipið og síðan umbreytt í vetni. Vetninu er svo breytt í raforku með efnarafali sem mun sjá um að knýja varaaflvél skipsins (e. auxillary generator). Sú orka sem þarf til þess að umbreyta vetninu verður fengin með sólarsellum sem verður komið fyrir á skipinu.

WHISPER (whisperenergy.eu) er verkefni upp á 1,4 milljarða króna og stendur í fjögur ár. Um er að ræða orkuskiptaverkefni sem einblínir á þróun og prófanir á vind- og sólarorkulausnum um borð í flutningaskipi og gámaskipi á sjó. Einn þáttur verkefnisins felst í samsetningu á tæknibúnaði fyrir sól- og vindorku, þar sem orkuþörf skipanna er mætt með rafmagni frá láréttum vindmyllum og sérhönnuðum sólarsellum. Einnig er verið að þróa rafsegl sem á að aðstoða við að knýja vélar skipanna. Einnig verður leitað lausna fyrir orkugeymslu, með því markmiði að draga úr eldsneytisnotkun eldri flutningaskipa um 30% og 15% hjá eldri gámaskipum.

Forsvarsmenn Verkís segja að með þessum tveimur verkefnum, GAMMA og WHISPER, sé verið að afla nýrrar og dýrmætrar þekkingar sem muni bæta þjónustu við fyrirtæki í tengslum við orkuskipti.

Verkís hefur umsjón með lykilþáttum í umræddum verkefnum, ekki þó allt sömu þáttunum í þeim báðum. Á meðal þess sem heyrir undir ábyrgð Verkís má nefna verkefnisstjórnun og tæknilega verkefnisstjórnun, hönnun á lagnakerfum og útvegun/geymsla rafeldsneytis, öryggis- og áhættustjórnun fyrir rafeldsneyti, loftflæðishermun og líftímaúttektir. Teymi Verkís veitir alhliða þjónustu, þar með talið greiningu, hönnun og forritun á sjálfvirknis- og eftirlitskerfum fyrir ýmis notkunarsvið. Þessi þjónusta felur í sér forritun á PLC, SCADA/HMI-kerfum, vélmennum og gangsetningu.

Í GAMMA-verkefninu mun Verkís í samstarfi við skipahönnuði hanna og þróa stjórnkerfi fyrir örugga geymslu og flutning rafeldsneytis frá bryggju til skips. Fyrirtækið ber einnig ábyrgð á verkfræðihönnun á lagnakerfi fyrir metanól og ammóníak, byggt á umfangsmikilli reynslu og þekkingu frá fyrri jarðvarmaverkefnum.

Forsvarsmenn Verkís segja að þegar hanna á nýtt eldsneytiskerfi um borð í skipi sé áhættustjórnun mikilvægt verkfæri og í GAMMA-verkefninu sé áhættustjórnin lykilþáttur þegar kemur að ákvörðunartöku um staðsetningu nýrra rafeldsneytis-kerfa. Þeir benda líka á að veigamikill þáttur í orkuskiptum fyrir siglingar og hafnir snúist um tengingar á milli lands og skips. Flest nútímaskip brenna jarðefnaeldsneyti, en samfara fjölgun hafna sem bjóða upp á hleðslustöðvar fyrir rafmagn, gefst skipunum kostur á að slökkva á eigin rafstöðvum í höfn og taka þannig mikilvæg skref að hreinni framtíð. Raftengingar á milli hafna og skipa draga einnig úr hávaðamengun frá skipunum meðan þau liggja við landfestar.

Forsvarsmenn Verkís segja að þar sem þriðju orkuskiptin snúist ekki aðeins um rafeldsneyti og nýtingu á vindorku og sólarorku, taki fyrirtækið líka virkan þátt í öðrum verkefnum sem snúast um orkuskipti, bæði með innlendum og erlendum aðilum.

Sérfræðingar ráðgjafaverkfræðistofunnar Verkís verða á bás E42 á IceFish 2024 til að ræða núverandi og verðandi orkuskiptaverkefni sem fyrirtækið vinnur að.

 

Verkis

Verkis

 

 

[Verkis.jpg] Myndatexti: Verkís er leiðandi samstarfsaðili í orkuskiptaverkefnum og tekur virkan þátt í þriðju orkuskiptum.